Hugmyndir að verkefnum birtast hér sem tillögur sem byggja á köflum kennslubókar í náttúrugreinum, Líf á landi eftir Sólrúnu Harðardóttur (2012), líffræðing og kennara. Bókin og verkefnin sem hér birtast eru ætluð miðstigi eða 5. – 7. bekk. Þau byggja á samþættingu náttúrugreina við list- og verkgreinar (myndmennt, hönnun og smíði og textílmennt).
Vert er að taka fram að þótt verkefnin byggi á kennslubók geta þau staðið sjálfstæð. Efnið má aðlaga þeim aðstæðum sem fyrir eru á hverjum stað og þeim aldri sem verkefnin eru ætluð. Gert er ráð fyrir að sú hugmynda- og kennslufræði sem fjallað er um í fræðilegum hluta verkefnisins sé höfð að leiðarljósi hvað varðar sjálfbærni í efnisnotkun, uppbyggingu efnisveitu, samvinnu kennara í teymum og einstaklingsmiðun. Öll viðfangsefnin sem hér eru útfærð snerta á sex grunnþáttum menntunar eins og þeir eru settir fram í Aðalnámskrá grunnskóla 2011. Þessir grunnþættir eru: læsi, sjálfbærni, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti, heilbrigði og velferð og sköpun. |
Verkefnið var styrkt af Náttúruverndarsjóði Pálma Jónssonar og var styrknum varið í netútgáfu verkefnasafnsins.
Hér má sjá verkefnasafnið í heild sinni á pdf formi. |